ÚTSKRIFTARPARTÝ ÁRSINS MEÐ NUSSUN, HÚGÓ og DJ EISA!
Útskriftarferðin 2026 er hugmynd sem spratt upp í samtali milli tónlistarmannanna NUSSUN, Húgó og DJ EISA. Þeim langaði að fara í útskriftarferð og hvað er betra en að fara sjálfur fyrst út og skoða aðstæður og velja viðburði fyrir mögulega bestu útskriftarferð sögunnar.
Á næsta ári verður Lloret de Mar orðin Íslendingaparadís þar sem strákarnir fara með í sérstöku teymi – ásamt fararstjórum – til Lloret de Mar og halda uppi stuði og stemningu með gríni og glensi eins og þeim einum er lagið, auk þess að halda tónleika úti á einum besta og stærsta skemmtistað í heimi, þeim besta á Costa Brava strandlengjunni og 24 besta klúbbi heims. Auk þess verða farnar ferðir í partýbáta, strandpartý, gokart, jet ski og fleira.
Strákarnir fóru í vikuferð til Lloret de Mar fyrr á árinu og prófuðu alla þessa hluti og geta með sanni sagt að þetta sé þess virði. Ferðin er þaulskipulögð, samgöngur til og frá staðnum upp á 10, öryggið alltaf á oddinum og traust ferðaskrifstofa bakvið skipulagið sem er til taks allan sólarhringinn.
STÆRSTA ÚTSKRIFTARPARTÝ Í SÖGU ÍSLANDS [VONANDI]
ÚTSKRIFTARTEYMIÐ

Tónlistartvíeykið NUSSUN samanstendur af Agli Breka og Sævari Breka. Þeir hafa verið að gera tónlist saman núna um nokkurt skeið en hafa þekkst frá barnsaldri. Margir þekkja þá frá samfélagsmiðlum á borð við TikTok, en þar hafa þeir gert vel undir sínum eigin miðlum og verið andlit fyrirtækja á borð við NOCCO á Íslandi. Strákarnir hafa komið fram á helstu skemmtunum og hátíðum landsins síðastliðið árið og kannast margir við lögin þeirra. Þeir munu koma fram á sérstakri tónlistarveislu á Lloret de Mar ásamt tónlistarmanninum HÚGÓ og DJ EISA.

Andri Fannar, einnig þekktur sem Húgó skaust fram á sjónarsviðið fyrir nokkrum árum, hann hóf tónlistarferil sinn undir huldu höfði og leituðu flestir Íslendingar svara við spurningunni „Hver er Húgó?“ sem endaði svo með þáttaseríu á Stöð Tvö þar sem hulunni var svipt af kauða. Hann gaf út plötu með NUSSUN árið 2024 sem hefur heldur betur slegið í gegn og hafa þeir þrír farið um landið allt og komið fram á stærstu hátíðum landsins saman. Andri Fannar hefur þó lengi verið með skemmtilega viðveru á samfélagsmiðlum, til dæmis Snapchat, þar sem hann var lengi vel einn stærsti áhrifavaldur landsins og svo nú á TikTok.

Einn besti og mest upprennandi plötusnúður Íslands mætir til Lloret de Mar og heldur upp stemningu allan tímann. EISI hefur fylgt strákunum í för hvert sem þeir fara og er þeim til halds og trausts. Hann hefur sannað það margoft úr hverju hann er gerður, með tónlistarsmekk sem höfðar til allra og hefur hann sjálfur haldið viðburði sem enda yfirleitt með því að allir einstaklingar eru mættir á dansgólfið að skemmta sér. DJ EISI verður sérlegur plötusnúður ferðarinnar þar sem hann hefur stór plön fyrir ferðina og verður með uppáhaldslögin ykkar fremst á blaði.